Um Nexus

Fyrst verslunarhorn, svo verslun, svo tvær og önnur þeirra risastór!

Fyrsti vísir að því sem varð Nexus spratt fram árið 1991 á 12 fermetrum í kjallara bókabúðarinnar Eymundsson við Hlemm þar sem seldar voru vísindaskáldsögur, fantasíur, bandarískar ofurhetjumyndasögur og Dungeons & Dragons hlutverkaspilið/spunaspilið. Fyrirmyndin var breska verslunin Forbidden Planet í miðborg London þar sem ægði saman alls kyns bókum, blöðum, VHS spólum og öðrum varningi sem tengdist vísindaskáldskap, fantasíu og horror.

Free Comicbook Day á Hverfisgötu

Sérhæfða hornið á Hlemmi varð að sér verslun handan við hornið á Rauðarárstíg um jólin 1992, fyrst undir nafninu Goðsögn/MYTH. Á næstu árum breyttist og þróaðist reksturinn, færðist milli staða í nágrenni Hlemms, skipti nafni yfir í Fáfnir, næst Nexus VI og svo loks bara Nexus.

Lengst var Nexus niðri í portinu á Hverfisgötu 103 eða um 17 ár, svo rúmlega 5 ár í Nóatúni 17, svo bættist við útibú í Kringlunni og loks flutti flaggskipið árið 2018 á sinn núverandi stað, kjallarann í fyrstu verslunarmiðstöð Íslands, Glæsibæ í Álfheimum, sem lengi hýsti hina víðfrægu sportvöruverslun Útilíf.

Snyrtileg röð eftir júlíútsölu Nexus

Frá upphafi seldi Nexus myndasögur, hlutverkaspil/spunaspil, vísindaskáldsögur og fantasíur en með árunum bættust við nýjir flokkar eins og borðspil, safnkortaspil, herkænskuleikir með módelum, ýmiss safnvara (bolir, plaköt, styttur ofl) búningar og larp-vara (live-action-role-playing). Vídeóleigan kom og fór, VHS vék fyrir DVD, Blu-ray bættist við, bókadeildin stækkaði og fór að selja allskonar bækur um ýmisleg, manga-myndasögur frá Japan urðu að stórum hluta myndasögudeildar þar sem ofurhetjur réðu áður ríkjum. Útgáfa fantasíu, vísindaskáldskapar og myndasagna á íslensku stórjókst. Í dag er verslunin í Glæsibæ orðin yfir 600 fermetrar og það vantar samt alltaf pláss fyrir nýjar vörur. Með aðstoð dyggra viðskiptavina heldur þróun Nexus áfram.

 

 

Spilasalur Nexus

Spilasalur Nexus að Hverfisgötu

Frá upphafi var Nexus með spilaaðstöðu með borðum og stólum þar sem hægt var að setjast niður og spila helstu spilategundir sem seldar voru í Nexus. Með árunum og sérstaklega með tilkomu kortaspilanna og aukinna vinsælda herkænskuleikja sem spiluð eru með módelum eða fígúrum á stórum borðum stækkaði spilasalurinn og starfsemi hans jókst. Í salnum eru haldnar spilakeppnir, boðið er upp á spilakennslu, aðstöðu til að setja saman og mála módel og svo kemur fólk saman að eigin frumkvæði og spilar. Spilasalurinn í dag í Glæsibæ er um 300 fermetrar að stærð. (ATH spilasalur er lokaður þessa dagana vegna samkomubannsins)

 

 

Önnur starfssemi

Nexus hefur verið virkt í að hefja eða styðja við allskonar starfssemi sem tengist þeim furðuheimum sem Nexus býður upp á.

Nexus er bakhjarl Nexus Noobs (noob er slangur fyrir “byrjandi”) námskeiðanna sem eru í boði sálfræðistofunnar Sentia. Frábær námskeið sem sameina kynningu á öllu því sem Nexus býður upp á og þjálfun í félagsfærni ungs fólks. Sjá vef Nexus Noobs.

Nexus hefur verið að gefa út Blökuna, myndasögur um Batman og aðrar ofurhetjur DC Comics í vandaðri íslenskri þýðingu. Nexus vill leggja sitt af mörkum til að efla yndislestur ungs fólks með því að auka úrvalið af lestrarefni í boði á íslensku. Sjá Blökuna í vefverslun Nexus.

Nexus er meðstofnandi Midgard aðdáendahátíðarinnar sem var fyrst haldin 2018. Midgard hátíðin er í anda Comicon hátíðanna víðfrægu, þar sem aðdáendur koma saman, sum mæta í búningum og það er boðið upp á ýmsa skemmtun, sölu, þjónustu, fyrirlestra, pallborðsumræður og fræðslu. Næsta hátíð er í byrjun september 2021. Sjá vef Midgard.